Hverjir eru líklegir?

Hverjir eru líklegir?

Sjálfsvíg geta átt sér stað í öllum fjölskyldum. Algengast er að sá sem styttir sér aldur hafi hugsað um það í einhvern tíma en stundum hefur ákvörðunin verið tekin snögglega án þess að viðkomandi hafi jafnvel áttað sig á endanleikanum. Oft hefur hann/ hún verið í öngstræti með tilfinningar sínar og átt erfitt með að tjá sig um þær. Margir hafa þjáðst af þunglyndi og sumir átt erfitt með að höndla áfengi eða önnur vímuefni og enn aðrir verið í samskiptavanda eða misst vinnu og /eða dottið út úr skóla. Oft er sagt að sá sem taki líf sitt tali ekki um sjálfsvíg en þegar aðstandendur fara að ræða saman síðar þá rifja þau upp ýmis augnablik þar sem sá látni hefur óljóst gefið eitthvað í skin um vanlíðan sína eða að hann/hún hafi látið í ljós að lífið væri einskins virði.

Harmleikurinn heldur áfram!

Hvert sjálfsvíg og alvarleg sjálfsvígstilraun hefur alvarleg og langvinn áhrif á fjölda einstaklinga í nánasta umhverfi þess sem fellur fyrir eigin hendi. Bak við hvert sjálfsvíg eru fjöldi ættingja og vina sem oft vita ekki sitt rjúkandi ráð. Margir þurfa aukin stuðning tímabundið til að vinna með sorg sína sem er ólík annarri sorg þar sem ótal spurningum er ósvarað auk þess sem ýmis minningarbrot geta komið upp.sem dæmi má nefna; ef ég hefði ekki sagt eða gert eða verið á staðnum þá hefði þetta aldrei gerst.

Eyðileggjandi áhrif sjálfsvígs.

Þegar nákominn hefur fallið fyrir eigin hendi koma upp ýmsar hugsanir og minningar sem erfitt getur verið að höndla. Innra jafnvægi raskast, erfiðar tilfinningar fara eins og rússibani í gegnum hugann. Syrgendur kenna sér stundum um, velta fyrir sér spurningunum af hverju hann/hún? Hefði ég getað gert eitthvað öðruvísi og komið í veg fyrir harmleikinn? Sumir tala um skömm aðrir fara að einangra sig þora jafnvel ekki að bindast á nýjan leik í ótta við höfnun, annan missi eða jafnvel dóma umhverfisins um að hafa gert eitthvað vitlaust. Erfitt getur verið að taka að sér verkefni hvað þá klára þau. Það sem áður var auðvelt verk verður allt í einu yfirþyrmandi. Sumir tala um einbeitingarskort og jafnvel minnisleysi. Aðrir tala um pirring og samskiptaörðuleika við sína nánustu. Margir kvarta undan svefnörðuleikum og ótti án skýringa um að eitthvað hræðilegt eigi eftir að gerast fyrir aðra nátengda. Eins ræða margir um að lífið verður aldrei það sama lífsgæði breytast og áherslur á hvað er mikilvægt í lífiinu. Margir segjast einnig átta sig á hverjir eru vinir í raun og marga undrar hve fljótt stuðningur umhverfisins hverfur. Margir unglingar sem missa systkini eða besta vin tala um að foreldrar séu endalaust að spyrja óþægilegra spurninga og þau megi ekkert. Sum börn verða mjög áhyggjufull og fara að axla of mikla ábyrgð á heimilinu til að hjálpa en þau þurfa ávallt að vita að það eru hinir fullorðnu sem ráða ferðinni. Þau spyrja sig líka margra spurninga eins og verða mamma og/ eða pabbi eins og þau voru áður eða verður þetta alltaf svona erfitt heima. Get ég gert eitthvað öðrum vísi, munu þau skilja ofan á allt annað sem er búið að gerast eða mun ég flytja frá öllum vinum mínum.

Hvað hjálpar?

Það er ekkert eitt sem hjálpar þeim sem glíma við sorg en stuðningur nærsamfélagsins er ómetanlegur og hver og einn hefur sínar þarfir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Sorg eftir sjálfsvíg er ólík annarri sorg og því er mikilvægt að gefa syrgendum tíma til að takast á við sorgina. Það að syrgja náin ástvin er full vinna og meira til. Sumir eru svo meðteknir af sorg að þeir eru tímabundið varla færir um að sinna sjálfum sér hvað þá öðrum. Því er mikilvægt að þeir viti að þeir sem eru í nærsamfélaginu séu tilbúnir að hlusta og vera til staðar, hjálpa þeim við einföldustu hluti s.s. undirbúning fyrir jarðarför, ýmiskonar útréttingar, heimilisstörf og síðast en ekki síst að sinna börnum ef þau eru á heimilinu því oft verða þau einangrast og skilja ekki hvað um er að vera. Óunnin sorg getur leitt til þunglyndis því er nauðsynlegt að hlúa vel að þeim sem eru að glíma við alla tilfinningarflóruna sem upp getur komið á ólíklegustu tímum. Mikilvægt er að hjón nái að tala saman og fái stuðning við að ræða um þær tilfinningar sem upp kunna að koma til að draga úr hættu á sundrungu og /eða ásökunum sem geta blossað upp. Oft nægir að tala við nána vini eða ættingja en stundum þarf að fá utanaðkomandi aðstoð sérfræðinga.

Börn eru mjög viðkvæm og þegar sorg fyllir heimilið getur þeim fundist erfitt að vera heima. Þau skilja illa hvað er að gerast og þora jafnvel ekki að spyrja. Sundum halda þau að þau séu ástæða fyrir að pabbi/mamma eða systkini vildi ekki lifa. Þau verða óörugg, einmana og ráðvillt Mikilvægt er að setjast niður með börnum og hjálpa þeim að skilja að sá sem tók líf sitt átti við erfiðleika að stríða og það sé engum að kenna að hann/hún treysti sér ekki til að lifa lengur.

Ef unglingur tekur líf sitt þá er sérstök þörf fyrir stuðning við vini og skólafélaga. Til eru leiðbeiningar fyrir kennara um hvernig bregðast á við og í langflestum skólum eru viðbragðsteymi sem eru virkjuð til að sinna syrgendum. Nauðsynlegt er að ræða sérstaklega við nánustu vini sem stundum hafa rætt sjálfsvíg en ekki trúað að einhver í þeirra hópi hafi liðið svo illa að hann hafi ekki viljað lifa. Eins er mikilvægt að ræða um það við unglinga að ef einhver í þeirra hópi líður illa þá eigi þau að segja fullorðnum frá.